Hmm.......

Ekki er nú mikið búið að gerast síðustu daga, er búinn að vera að vinna eins og fáráður og lítið mætt í skólann. Sem er nú ekki gott, en einhvern veginn verður maður víst að borga reikningana. Annars er það helst að frétta að við skötuhjú erum að flytja í Hveragerði eða Húrígúri eins og hann er stundum kallaður um næstu mánaðarmót. Þetta nýja heimili okkar er í sama húsi og Snúllabar var, á efri hæðinni. Sem sagt í hjarta Hveragerðis.

Ætlunin er að eiga heima þarna í sumar og sjá svo til hvað við gerum í haust. Ef Gunna ætlar að ganga menntaveginn áfram eftir stúdentinn, getur verið að við flýjum sveitina og setjumst að á mölinni, en hún er ennþá að ákveða sig. Er nú alltaf að reyna að benda henni á að fara í eitthvað sem veitir góðar tekjur og öruggt starf. Heyrirðu það Gunna!!.. sérstaklega þar sem stjórnmálafræðingar eru margir hverjir atvinnulausir eða óbrettir verkamenn.  Get þó huggað mig við það að sennilega get ég gengið beint inn í úrítandeildina í SETLoL að loknu námi. Nema maður gerist framsóknarmaður og fari að skrifa á fullu fyrir þá. Þeir sjá um sína, enda orðnir frekar fáir er það ekki?  

Ég vil samt taka það fram að þótt ég muni eiga heima í Hveragerði í sumar þá er ég enn Selfyssingur og verð alltaf selfyssingur í hjarta mínuCrying


Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér!!

Eiki Hauks rauðhærður og stoltur af því! Eða hvað?

Ég var að glugga fréttablaðið í gær og þar sá ég litla frétt, sem stakk mig svona svakalega í hjartað, að ég hef sjaldan lent í öðru eins. Og þegar ég tala um stungu í hjartað, þá er ég ekki að meina stungu eftir einhvern svissneskan aumingja, heldur fokkings samúrajasverð.

Rauðhærða rokkhetjan Eiki Hauks litaði hárið á sér BRÚNT fyrir Eurovision myndbandið sitt… WTF!!

Fyrir samfélag rauðhærðra er þetta álíkað sjokk eins og fyrir homma ef Páll Óskar myndi fara aftur inn í skápinn, eða fyrir konur eins og ef Bríet Bjarnhéðinsdóttir myndi ganga aftur og láta græða á sig typpi, ganga í Sjálfstæðisflokkinn og verða forsætisráðherra.

Og ekki nóg með að hann litaði það brúnt, heldur litaði hann það kastaníubrúnt og allir vita að þeir sem eru með kastaníubrúnt hár eru rauðhærðir í afneitun.

Það er ljóst að það verður að taka upp þetta myndband aftur eða gera einhvern fjandann við það gamla þannig að Eiki Hauks verði aftur rauðhærður. Annars getur allt farið til fjandans. Rauðhærðir fara að skammast sín fyrir hár sitt og kastaníubrúnt (það ógeðis hugtak) verður aftur vinsælt. Þetta gerir að sjálfsögðu ekkert annað en að ala á fordómum og rauðhærðir verða stimplaðir sem annars flokks fólks, eins og örfhentir, gamlingjar og öryrkjar. Við megum hreinlega ekki við því að missa eina af okkar fáu hetjum 


Úr einu í annað

Loksins er ég búinn með ritgerðina sem ég byrjaði á fyrir viku síðan. Ekki það að ég sé búin að sitja sveittur átta tíma á dag í heila vikur, heldur vinn ég afskaplega hægt. Það er ótrúlegt hvað ég get verið lengi að koma mér í ritgírinn og það er enn ótrúlegra hvað hann varir stutt. Ég hlýt hreinlega að vera með athyglisbrestErrm.

Annars fjallaði ritgerðin um ólguna í Mið-Austurlöndum, sem er nú áhugavert efni út af fyrir sig og eitthvað sem maður heyrir um í fréttum á hverjum degi. Það litla álit sem ég hafði á Bush og utanríkisstefnu hans hvarf hins vegar algerlega eins og dögg fyrir sólu. Þeir eru hreinlega með puttana í öllum málum allra landa, annað hvort með óbeinum eða beinum hætti. Magnaðir andskotar þessir kanar. Það er ótrúleg hræsni að ráðast inn í lönd eins og Afganistan og Írak til að stuðla að lýðræði í heiminum eins og þeir segja, en eru svo "bestu vinir aðals" í Sádí-Arabíu og Egyptalandi, sem eru mestu einræðisríki í heiminum. Þar mega menn ekki prumpa á almannafæri án þess að vera drepnirNinja. Sennilega þess vegna sem þeir nenna ekki að skipta sér af því. Það er náttúrulega engin ólga í þessum löndum, vegna þess fólkið má ekkert og veit ekkert, annars er það bara grýtt til dauða eða guð má vita hvað…Já og svo eiga Sádarnir náttúrulega ¼ af allri olíu í heiminum.

Ætla nú ekki að fara nánar út í þetta þar sem stjórnarandstæðan hér á landi er búin að sjá til þess að landsmenn eru komnir með grænar bólur af þessum umræðum um innrásirnar í Afganistan og Íran og hvað þá þessum blessaða lista, sem Dabbi og Dóri skrifuðu undir. Heyrði einhverja konu vera að tuða yfir listanum í fréttum alveg bálreið. Allt í lagi að nefna afleiðingarnar af þessum stríðum, þ.e.a.s. borgarastyrjaldir og allt það, en í guðanna bænum sleppið þessum lista. Það er orðið hálf kjánalegt. Ég held líka að stjórnarandstæðan ætti fjalla um eitthvað sem skiptir máli fyrir nútímann og framtíðina í stað þess að vera að velta sér endalaust upp úr þessu.

Það er líka svo stutt síðan þeir gerðu sig að fífli með þessa klámráðstefnu, vildu fara að ræða það sérstaklega á Alþingi þótt nokkrir klámhundar komi til landsins.

Spurning hvort VG hefðu látið loka landinu ef þeir hefðu verið í ríkisstjórn


Þriðjudagar til þrautar

Ég er búin að vera í einhverju móki síðstu daga og nenni ekki miklu. Er að vinna í einhverri leiðindar ritgerð sem gengur vægast sagt hægt. Maður gleymir sér alltaf og fer bara að vafra eitthvað um netið og skoða eitthvað drasl. Það er samt ótrúlegt hvað ég eyði miklum tíma á hverjum degi að lesa sömu fáu heimasíðurnar. Fer alltaf sama hringinn. Ég byrja á mbl.is og fer þaðan á fotbolta.net, því næst á einhverjar nokkrar bloggsíður hjá vinum og kunningjum og svo á póstinn minn og kannski tvær til þrjár síður í viðbót, og svo byrja ég bara á sama hringnum aftur. Hvað gerðu menn eiginlega áður en Internetið kom?

Annars þyrfti ég verulega að taka mína námstækni í gegn. Í stað þess að nota einhverja viðurkennda heimildabanka eins og Web of Science og brittanicu og hvað þeir heita allir, er ég enn að notast við Google og Wikipedia. Og helst þá aðeins Íslenskar greinar, því maður er svo latur að maður nennir ekki að lesa enskuna. Passa mig bara á því að setja þessar heimildir ekki í heimildasrkánna, því það myndi sjálfsagt þýða fall. En á meðan þetta virkar er þá nokkur ástæða til að breyta?

Nú mundu sjálfsagt einhverjir samviskusamir vitringar koma með þessar sömu gömlu tuggur. Spyrja mig að því hvort ég sé ekki að læra fyrir sjálfan mig og að þetta muni koma mér í koll síðar meir, en málið er að maður er búinn að fá að heyra þetta síðan maður var í barnaskóla og aldrei hefur þetta komið manni neítt í koll.

P.S. Læt fylgja með myndband af skemmtilegasta leikmanni ensku deildarinnarWink http://kvikmynd.is/video.asp?land=&offset=54&ba=itrottir&id=2641


Ölvun ógildir miðann; ætli þetta eigi við um alþingiskosningar?

Ég hef mikið verið að spá í hvaða flokk ég ætli að kjósa í komandi Alþingiskosningum, en kemst bara ekki að niðurstöðu. Ef kosið yrði á morgun held ég að ég myndi skila auðu, eða einfaldlega sleppa því að gera mér ferð á kosningastað. Gefa bara skít í þetta. Leyfa öllum að hneykslast á því hvers vegna ég nýti ekki minn lýðræðislega rétt og hvort mér sé alveg sama um lýðræðið, hvort ég sé kannski bara anarkisti og allt það.

Fékk þessa romsu yfir mig frá ákveðnum samnemenda mínum í stjórnmálafræðinni þegar ég tjáði þeim að ég hefði bara gleymt að kjósa í háskólakosningunum um daginn. Að sjálfsögðu var það lygi, því ég einfaldlega nennti ekki að kjósa.

Annars sá Vaka um að minna mig á kosningarnar með 5 mínútna millibili með sms-um og símhringingum, þannig að ég hefði svo sem aldrei getað gleymt þeim. Ég þarf varla að taka það fram að flestir þeir sem bjóða sig fram fyrir Vöku eru bláir í gegn og allir vita hvað Sjálfstæðismönnum finnst gaman að hringja í fólk á elleftu stundu til að gá hvort þeir séu ekki örugglega búnir að kjósa og hvort þeir hafi ekki kosið "rétt". Buðust meira að segja að ná í mig á Selfoss og keyra mig í bæinn, hefði átt að leyfa þeim að koma og gefa þeim vitlaust heimilsfang og slökkva svo á símanum.

En ef ég vík aftur að alþingiskosningunum þá finnst mér það vera bull að það sé miklu betra að skila auðu, heldur en að spara sér bara ferðina og sleppa því að mæta, því það kemur út á eitt. Finnst eitthvað kjánalegt við að keyra á kjörstað, bíða í biðröð eftir því að komast í kjörklefann ef maður ætlar sér aldrei að kjósa neinn hvort sem er. Ef auðu seðlarnir myndu hins vegar hafa einhver raunveruleg áhrif þá myndi þetta horfa öðruvísi við.

Ég legg til að málið verði sett í nefnd og aðum kjörseðlum verði fundið eitthvert gildi. T.d. ef auðir seðlar færu yfir 50%, eða væru fleirri en öll atkvæði stærsta flokksins þá ætti engin flokkur að komast til valda og einhver málamiðlun yrði fundinn, kannski eitthvert sérfræðingaveldi. Þetta fyrirkomulag myndi allavega ýta á flokkana til að þjóna fólkinu sem best. 

Annars er best að ég hætti núna, er orðið helv... langt og leiðinlegt blokk, langaði bara að koma þessari hugmynd á framfæri áður en einhver annar stelur henni og verður frægur


Número uno

Jæja þá er maður búin að stofna bloggsíðu, eitthvað sem ég ætlaði aldrei að fara út í. Ekki það að ég hafi frá einhverju spennandi að segja, heldur er ég einfaldlega komin með leið á Football Manager og verð því að finna mér eitthvað annað til dundurs.

Í stað þess að gera eitthvað uppbyggilegt og gagnlegt eins og að læra heima, vinna meira eða fara í ræktina, hef ég ákveðið að blogga um mitt frábærlega innihaldsríka og spennandi líf ykkur lesendum góðum til yndisauka, eða þannig…


Höfundur

Böðvar Einarsson
Böðvar Einarsson
Nemi í stjórnmálafræði og Nallari með meiru

Skoðanakönnun!!

Hvern af eftirtöldum mönnum mynduð þið mest vilja fótbrjóta?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband